Flensborgarhöfn

Flensborgarhöfn

Ár
2024
Staðsetning
Hafnarfjörður, Ísland
Staða
Í vinnslu
Samstafsaðilar
design image

AÐDRAGANDI OG SKIPULAGSFORSENDUR

Árið 2018 efndi Hafnarfjarðarbær til hugmyndasamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæðið. Tvær tillögur báru sigur úr býtum. Vinningstillögurnar voru sameinaðar í eina sem síðar voru þróaðar í breytingu á aðalskipulagi.
Markmið rammaskipulagsins var að auka samtvinnun bæjar og hafnar með þéttri
og blandaðri byggð í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi. Stefnt var að
því að skapa heildstæða byggð í anda sögunnar og þeirra umhverfisgæða sem eru fyrir hendi með breyttri landnotkun og bættri nýtingu innviða. Samþætt nálgun skipulagstillögunnar leggur áherslu á anda staðarins, hágæða almenningssvæði, aukið lífríki, græna samgöngumáta og fjölbreyttan arkitektúr.
Skipulags- og byggingarráð samþykkti tillögu rammaskipulags Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, dags. 23. janúar 2020. Fyrirhugað deiliskipulagssvæði var áður hluti af hafnarsvæði Suðurhafnar. Með breytingu á aðalskipulagi sem öðlaðist 27. janúar 2023 er svæðinu breytt í miðsvæði M5.
Aðalskipulagsbreyting fyrir svæðið er í anda Svæðisskipulags (SSH 2040), en þar er mörkuð stefna um að draga úr útþenslu byggðar og jafnframt er lögð áhersla á skilvirkar almenningssamgöngur. Þar koma fram áform um uppbyggingu samgöngu- og þróunarás á milli þéttbýliskjarna á höfuðborgarsvæðinu. Meðfram ás þessum er gert ráð fyrir hágæða almenningssamgöngum /borgarlínu, auk þéttingu og blöndun byggðar.

HELSTU VIÐFANGSEFNI & MARKMIÐ

Að þróa hugmyndir og markmið aðalskipulags í nýtt deiliskipulag, sem miðar að því að styrkja tengsl hafnar og bæjar
Heildaryfirbragði svæðisins verði breytt með bættri nýtingu þess. Við uppbyggingu svæðisins verði tekið tillit til sérkenna þess og sérstöðu í bæjarmynd Hafnarfjarðar.
 Gæði, sjálfbærni og verðmæti svæðisins verði aukið með betri landnýtingu, þéttari byggð og bættu umhverfi og lífsgæðum fyrir notendur og íbúa.
 Lögð verði áhersla á aðlaðandi yfirbragð byggðarinnar, vandaðan frágang bygginga, opin bæjarrými og lifandi starfsemi á hluta jarðhæða sem skapar fjölbreytt mannlíf.
 Umferðartengingar inn á svæðið verði bættar með umferðaröryggi að leiðarljósi. Góð tenging verði við aðliggjandi svæði og miðbæ með stígum fyrir gangandi
og hjólandi. Gott aðgengi verði að smábátahöfninni og umferðarflæði við Suðurhöfn verði áfram tryggt í sátt við nýja uppbyggingu.
Að skipuleggja einfalt og hagkvæmt gatna- og stígakerfi (göngu- og reiðhjólaleiðir) sem þjónar byggðinni á sem bestan og öruggastan hátt með áherslu á gott aðgengi allra.
Að deiliskipulag stuðli að umhverfisvænum og sjálfbærum lausnum í innviðum hverfisins og á sérhverri lóð t.d. með ívilnunum og/eða hvötum fyrir þá sem byggja vistvænar og vottaðar byggingar.
Að skipulagsgerð og ákvarðanataka verði í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem byggir á efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum stoðum sjálfbærrar þróunar.

FLENSBORGARHÖFN: SAGA OG STAÐARANDI

Flensborgarhöfn í Hafnarfirði hefur í gegnum tíðina verið órjúfanlegur hluti sjávarútvegs og útgerðar í bænum. Þrátt fyrir að iðnaðarhlutverk svæðisins hafi verið víkjandi síðustu áratugina er ímynd hafntengdar starfssemi sýnileg á svæðinu og lifandi í hjörtum bæjarbúa.
Sjómannadagurinn er rótgróinn viðburður í sögu Hafnarfjarðar, allt frá árinu 1953. Þar gefst fólki tækifæri til heimsækja Hafnarfjarðarhöfn og kynnast þeirri menningu sem þar er boðið upp á, listasöfn og fjölbreytta veitingastaði. Sjómannadagurinn undirstrikar mikilvægi sjávarútvegsins fyrir nærsamfélagið
Merkustu mannvirki svæðisins eru annars vegar Íshús Hafnarfjarðar sem var áður öflugt hraðfrystihús og fiskvinnsla. Hins vegar slippurinn og dráttarbrautin sem eru síðustu minningarnar um skipasmíði og fjörutengingu í miðbæ Hafnarfjarðar frá dögum Bjarna Riddara.
Tillaga deiliskipulagsins einkennist af lífrænu skipulagi með lágreistum húsum og vistgötu sem hlykkist á milli og skapar fallega þorpsstemningu. Hús sem eru klædd timbri og málmklæðningum endurspegla hefðbundnar byggingaraðferðir. Hallandi þök bæta við kraftmiklum karakter og opið byggðarmynstur tryggir sjónrænar tengingar við vatnið og eykur samspil hins byggða umhverfis og hafnarinnar. Þessir þættir stuðla saman að einstökum sjarma Flensborgarhafnar.

HUGMYNDAFRÆÐI

Hugmyndin að skipulagi Flensborgarhafnar er innblásin af
sögulegu byggðarmynstri Hafnarfjarðar og miðar af því að skapa lífræna tengingu á milli húsa og auðga mannlífið á milli þeirra. Í stað nútímalegrar uppbyggingar sem oft einkennist af reglufestu randbyggð með inngörðum og afgirtum lóðum er lögð áhersla á opið flæði og gott aðgengi um svæðið í heild sem leiðir af sér spennandi mannlíf, rými og aukna notkun.

“Hafnarteppið” og hafnarbakkinn - Yfirborð svæðisins

Lykilatriði í skipulaginu er hafnarteppið sem er sjónrænt samhangandi yfirborð svæðisins alls. Markmiðið er hægt sé að lesa og skynja svæðið sem eina heild þó að markað sé í yfirborðið fyrir vistgötu, lóðamörkum, bílastæðum og svo framvegis. Þetta samhangandi yfirborð tryggir samnýtingu svæðisins, fagurfræðileg gæði og ýtir undir tilfinningu fyrir samhengi húsa og útisvæða. Undantekningar frá hafnarteppinu verða gerðar til að fella inn græn svæði og þar
sem starfsemi krefst aðgangsstýringar. Þetta verður nánar útlistað í sérskilmálum lóða. Þar sem svæðið mætir sjó er svo hafnarbakki. Trébryggja þar sem verða bekkir og fleira sem laðar að fólk í rólega göngutúra þar sem hægt er að fylgjast með starfseminni í höfninni og njóta nálægðar við sjóinn.

Umferðarásar

Kjarnin í umferðarskipulagi Flensborgarhafnar eru þrjár meginumferðaræðar.
Strandgata sem myndar skipulagsmörk til suðurs er megin umferðaræðin að og frá hverfinu. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að Borgarlínan komist þar fyrir ásamt almennri bílaumferð, hjólandi og gangandi umferð. Flensborgarstræti er samofin kjarna skipulagsins frá austri til vesturs. Strætið stuðlar að líflegu en notalegu umhverfi þar sem gangandi, hjólandi og ökutæki deila rýminu.
Meðfram höfninni er svo trébryggja sem er göngustígur sem býður upp á afslappað andrúmsloft með fallegu útsýni yfir höfnina og tækifæri til að njóta stundarinnar.

Torgin

Meðfram umferðarásum eru almenningsrými sem lögð er sérstök áhersla á að fólk geti notið. Við stoppistöð almenningssamgangna er torg sem tengist hugsanlegri matvöruverslun og ýmislegri þjónustu. Torgið framan við Íshúsið tengir Flensborgarstræti við bryggjustíginn og er aðal kennileiti og samkomustaður svæðisins. Slippsvæðið og gamla dráttarbrautin er síðasta fjörutengingin í miðbænum og þar er hægt að upplifa nánd við sjóinn. Kennileiti er staðsett á jaðri skipulagsins og er ætlað að laða að fólk til að upplifa höfnina frá öðru sjónarhorni.

Sjónlínur

Að viðhalda sjónlínum í gengum Flensborgarhöfn er eitt af lykilatriðum skipulagsins. Þær tryggja að íbúar og gestir hafi skýra tengingu við höfnina og eykur jákvæða upplifun. Þetta miðar einnig að því að lágmarka eins og hægt er skerðingu útsýnis nálægrar byggðar.

Önnur Verk